OLO
Sálmarnir
1
Mikil er gæfa þess manns sem ekki fer að ráðum óguðlegra, ekki á félagsskap við syndara sem hæða Guð, heldur hefur unun af því að hlýða Drottni og íhuga orð hans dag og nótt, og þannig nálgast hann sífellt meira.
Hann líkist tré sem stendur við rennandi læk og ber sætan ávöxt sinn á réttum tíma og blöð þess visna ekki. Slíkum manni tekst allt vel.
En hvað með syndarana? Það er önnur saga! Þeir fjúka burt eins og hismi undan vindi. Þeir munu ekki standast á degi dómsins né heldur í söfnuði réttlátra.
Drottinn vakir yfir lífi og áformum hinna trúuðu, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2
Hvílík heimska að þjóðirnar skuli ráðast gegn Drottni! Furðulegt að menn láti sér detta í hug að þeir séu vitrari en Guð! Leiðtogar heimsins hittast og ráðgera samsæri gegn Drottni og Kristi konungi. „Komum,“ segja þeir, „og vörpum af okkur oki hans. Slítum okkur lausa frá Guði!“
En á himnum hlær Guð að slíkum mönnum! Honum er skemmt með þeirra fánýtu ráðagerðum. Hann ávítar þá í reiði sinni og skýtur þeim skelk í bringu.
Drottinn lýsir yfir: „Þennan konung hef ég útvalið og krýnt í Jerúsalem, minni helgu borg“.
Hans útvaldi svarar: „Ég mun kunngera áform Guðs, því að Drottinn sagði við mig: „Þú ert sonur minn. Í dag verður þú krýndur. Í dag geri ég þig dýrlegan“.“ „Bið þú mig og ég mun leggja undir þig öll ríki heimsins. Stjórnaðu þeim með harðri hendi og mölvaðu þau eins og leirkrukku!“
10 Þið, konungar jarðarinnar! Hlustið meðan tími er til! 11 Þjónið Drottni með óttablandinni lotningu og fagnið með auðmýkt. 12 Fallið á kné fyrir syni hans og kyssið fætur hans svo að hann reiðist ekki og tortími ykkur! 13 Gætið ykkar, því að senn mun blossa reiði hans. En munið þetta: Sæll er hver sá sem leitar ásjár hjá honum.
3
Sálmur eftir Davíð þegar hann flúði frá Absalon, syni sínum.
Ó, Drottinn, það eru svo margir á móti mér, svo margir sem gera uppreisn gegn mér. Menn segja að Guð muni alls ekki hjálpa mér. En, Drottinn, þú ert skjöldur minn, sæmd mín og von. Þú lætur mig bera höfuðið hátt, þrátt fyrir allt.
Ég hrópaði til Drottins og hann svaraði mér frá musteri sínu í Jerúsalem. Þá lagðist ég fyrir og sofnaði í friði. Síðar vaknaði ég öruggur, því að Drottinn gætir mín. Nú er ég óhræddur, jafnvel þótt tíu þúsund óvinir umkringi mig! Ég mun hrópa til Drottins: „Drottinn, rís þú upp! Bjargaðu mér, þú Guð minn!“ Og hann mun slá óvini mína og brjóta tennur illvirkjanna. Hjálpin kemur frá Guði. Blessun hans hvílir yfir þjóð hans.
4
1-2  Þú, Guð réttlætis míns, þú sem hefur annast mig í öllum mínum erfiðleikum. Hlusta nú þegar ég kalla á nýjan leik. Miskunna þú mér. Heyr bæn mína.
Drottinn Guð spyr: „Þið mannanna börn, ætlið þið endalaust að vanhelga nafn mitt með því að tilbiðja þessa heimskulegu hjáguði? Vitið þið ekki að heiður þeirra er bull og hégómi?“
Takið eftir: Drottinn hefur sýnt mér mikla náð og hann mun hlusta og svara mér þegar ég kalla. Sýnið Drottni óttablandna lotningu og syndgið ekki gegn honum. Hugsið um þetta í hvílum ykkar og verið þögul. Setjið traust ykkar á Drottin, og færið honum þóknanlegar fórnir.
Margir spyrja hvar hjálp sé að fá. Drottinn, þú ert sá sem hjálpar. Láttu ljós þitt lýsa okkur. Gleðin sem þú hefur veitt mér er mun meiri en þeirra sem gleðjast yfir ríkulegri uppskeru. Nú leggst ég til hvíldar í friði og sofna, því þú, Drottinn verndar mig gegn öllu illu.
5
1-2  Drottinn, hlustaðu á orð mín. Heyr þú mína einlægu bæn. Hlustaðu á kveinstafi mína, þú Guð, konungur minn, því að ég mun aldrei biðja til neins nema þín. Á hverjum morgni horfi ég til himins, já til þín, og legg bænir mínar fram fyrir þig.
Ég veit að þú fyrirlítur óguðleika og að þeir sem iðka hið illa fá ekki að dveljast hjá þér. Hrokafullir syndarar standast augnaráð þitt ekki, því að þú hatar illgjörðir þeirra. Þú munt eyða þeim sem tala lygi og þú hefur andstyggð á morðum og svikum.
En hvað um mig? Af náð þinni fæ ég að ganga inn í musteri þitt, umvafinn vernd þinni og ást. Ég vil tilbiðja þig í djúpri lotningu.
Drottinn, leiddu mig eins og þú lofaðir mér, annars munu óvinir mínir sigra mig. Segðu mér skýrt hvað ég á að gera, og hvert ég á að fara, 10 því að þeir reyna að blekkja mig. Hjörtu þeirra eru full af illsku. Tortíming og dauði býr í ráðum þeirra og þeir nota svik og pretti sér til framdráttar. 11 Ó, Guð láttu þá fá makleg málagjöld. Þeir lendi í eigin gildru. Hrintu þeim burt vegna hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.
12 En þeir sem treysta þér gleðjast og kætast. Þeir hrópa af gleði því þú verndar þá. Þeir sem elska þig gleðjast yfir þér. 13 Því að þú, ó Guð, blessar hinn trúaða, þú verndar hann með skildi elsku þinnar.
6
1-2  Æ, Drottinn! Ekki refsa mér í reiði þinni! Miskunnaðu mér því að ég örmagnast. Lækna mig, því að líkami minn er sjúkur. Ég er hræddur, veit ekki mitt rjúkandi ráð. Ó, Drottinn, reistu mig á fætur, og það fljótt!
Komdu Drottinn og læknaðu mig. Bjargaðu mér í kærleika þínum. Því að ef ég dey, þá get ég ekki lengur lofað þig meðal vina minna. Ég er aðframkominn af kvöl. Hverja nótt væti ég koddann með tárum. Augu mín daprast af hryggð vegna illráða óvina minna.
Farið! Látið mig í friði, þið illmenni, því að Drottinn hefur séð tár mín 10 og heyrt grátbeiðni mína. Hann mun svara öllum mínum bænum. 11 Óvinir mínir munu verða til skammar og skelfingin mun steypast yfir þá. Guð mun reka þá sneypta burtu.
7
1-2  Ég treysti þér, Drottinn, Guð minn, að þú frelsir mig frá þeim sem ofsækja mig. Þeir vilja ráðast á mig úr launsátri eins og ljón, særa mig og draga burt hálfdauðan. Láttu það ekki takast! En Drottinn, ef ég hefði illt fyrir stafni – ef ég launaði gott með illu eða beitti nágranna mína órétti, þá væri réttlátt að þú létir óvini mína eyða mér, fella mig og fótum troða.
En Drottinn! Rís þú upp í reiði gegn ofstopa óvina minna. Vakna þú Drottinn! Láttu mig ná rétti mínum! 8-9  Safnaðu saman öllum þjóðum. Taktu þér sæti hátt uppi yfir þeim og dæmdu syndir þeirra. En mig, Drottinn, lýstu mig réttlátan svo allir heyri, auglýstu réttlæti mitt og ráðvendni. 10 Stöðvaðu alla illsku, Drottinn, og blessa þá sem í einlægni tilbiðja þig. Því að þú, réttláti Guð, kannar hugarfylgsni mannanna og rannsakar viðhorf þeirra og tilgang.
11 Guð er skjöldur minn. Hann mun vernda mig. Hann frelsar þá sem hjartahreinir eru.
12 Guð er fullkomlega réttlátur dómari og dag hvern gremst honum illska hinna vondu. 13 Ef þeir iðrast ekki mun hann bregða sverði og eyða þeim. Hann hefur spennt boga sinn 14 og lagt eldlegar örvar á streng, – banvænar örvar.
15 Hinn illi bruggar launráð og íhugar vélabrögð sín. Hann lætur til skarar skríða með lygum og svikum. 16 Hann falli á eigin bragði. 17 Ofbeldið sem hann ætlaði öðrum, verði honum sjálfum að fjörtjóni.
18 Ég lofa og vegsama Drottinn, því hann er góður. Ég vil lofsyngja nafni Drottins, honum sem er öllum drottnum æðri.
8
1-2  Ó, Drottinn Guð, mikið er nafn þitt! Jörðin er full af dýrð þinni og himnarnir endurspegla mikilleik þinn.
Þú hefur kennt börnum að lofsyngja þér. Fyrirmynd þeirra og vitnisburður þaggi niður í óvinum þínum og valdi þeim skömm.
Þegar ég horfi á himininn og skoða verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar sem þú hefur skapað – þá undrast ég að þú skulir minnast mannsins, láta þér umhugað um mannanna börn. Og líka, að þú lést manninn verða litlu minni en Guð! Krýndir hann sæmd og heiðri!
Þú hefur sett hann yfir allt sem þú hefur skapað, allt er honum undirgefið: Uxar og allur annar fénaður, villidýrin fuglar og fiskar, já, allt sem í sjónum syndir. 10 Ó, Drottinn Guð, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
Text info
OLO