18
1 Eftir þetta fór Páll frá Aþenu og kom til Korintu.
2-3 Þar komst hann í kynni við Akvílas, sem var Gyðingur frá Pontus. Hann var, ásamt konu sinni Priskillu, nýkominn til borgarinnar frá Ítalíu. En þaðan hafði þeim verið vísað burt samkvæmt þeirri ákvörðun Kládíusar keisara að reka alla Gyðinga frá Róm. Páll fór til þeirra og vegna þess að hann og Akvílas stunduðu sömu iðn, tjaldsaum, settist hann að hjá þeim og þeir unnu saman.
Páll verður postuli heiðingjanna
4 Páll fór í samkomuhús Gyðinganna á hverjum helgidegi og reyndi að sannfæra Gyðinga og Grikki, sem þangað komu.
5 Eftir að Sílas og Tímóteus komu til Korintu frá Makedóníu, varði Páll öllum tíma sínum til að predika og vitna fyrir Gyðingunum um að Jesús væri Kristur.
6 En Gyðingarnir risu gegn honum og lastmæltu Jesú. Þá hristi hann rykið af fötum sínum og sagði: „Þið berið ábyrgð á þessari ákvörðun ykkar – ég er saklaus og héðan í frá mun ég predika hjá heiðingjunum.“
7 Eftir þetta dvaldist hann hjá manni að nafni Títus Jústus. Hann var ekki Gyðingur, en tilbað þó Guð. Heimili hans var í næsta húsi við samkomuhús Gyðinga.
8 Svo fór þó að lokum að Krispus, stjórnandi samkomuhússins, tók trú á Drottin, og allt hans heimafólk. Var hann skírður, auk margra annarra Korintubúa
9 Nótt eina talaði Drottinn til Páls í draumi og sagði: „Vertu ekki hræddur! Þú átt ekki að þegja heldur tala!
10 Ég er með þér og enginn getur gert þér mein, því að ég á margt fólk í þessari borg.“
11 Þarna dvaldist Páll í hálft annað ár og fræddi fólkið í orði Guðs.
12 Þegar Gallíón varð landstjóri í Akkeu, sameinuðust Gyðingarnir gegn Páli og drógu hann fyrir landstjórann, til þess að fá hann dæmdan.
13 Þeir ákærðu Pál fyrir að hvetja menn til að tilbiðja Guð á annan hátt en rómversk lög leyfðu.
14 En rétt í því er Páll ætlaði að fara að verja mál sitt, sneri Gallíón sér að ákærendum hans og sagði: „Takið eftir, Gyðingar! Ef þessi málshöfðun væri vegna einhvers glæpsamlegs athæfis, þá væri ég skyldugur að hlusta á ykkur.
15 En fyrst þetta er aðeins þras um merkingu og túlkun ýmissa orða í ykkar heimskulegu lögum, þá er það ykkar mál. Ég kem ekki nálægt slíku!“
16 Síðan rak hann þá alla út úr réttarsalnum.
17 Þá réðist múgurinn á Sósþenes, nýja samkomuhússtjórann, og barði hann fyrir utan réttarsalinn, en Gallíón gaf því engan gaum.
18 Eftir þetta dvaldist Páll enn nokkra daga í borginni. Síðan kvaddi hann hina kristnu og sigldi til Sýrlands ásamt Priskillu og Akvílasi. Í Kenkreu lét Páll klippa sig að sið Gyðinga – var það vegna þess heits sem hann hafði gefið.
19 Þegar komið var til hafnar í Efesus skildi hann okkur eftir um borð, en fór sjálfur í land til að ræða við Gyðinga í samkomuhúsi þeirra.
20 Þeir báðu hann að staldra við nokkra daga, en hann sagðist engan tíma hafa.
21 „Ég má til með að komast til Jerúsalem á hátíðina,“ sagði hann, en hann lofaði þeim að koma seinna, ef Guð leyfði. Síðan sigldum við aftur af stað.
22 Næsti viðkomustaður var Sesarea. Þaðan fór hann í heimsókn til safnaðarins í Jerúsalem en síðan var siglt til Antíokkíu.
23 Þegar hann hafði dvalist þar um hríð, fór hann aftur til Litlu-Asíu. Hann ferðaðist um Galatíu og Frýgíu, heimsótti þar kristna söfnuði og uppörvaði þá.
24 Um þessar mundir var Gyðingur einn, Apollós að nafni, nýkominn til Efesus frá Alexandríu í Egyptalandi. Hann var mjög Biblíufróður og sannfærandi predikari.
25-26 Hann hafði fengið fræðslu um trúna, var brennandi af áhuga og kenndi í krafti heilags anda um Jesú, en þekkti þó aðeins skírn Jóhannesar. Hann predikaði djarflega og af miklum áhuga í samkomuhúsinu. Eitt sinn voru Priskilla og Akvílas stödd þar þegar Apollós var að predika og það var kröftug ræða. Að ræðunni lokinni töluðu þau við hann og skýrðu enn rækilegar fyrir honum trúna á Drottin.
27 Apollós hafði áhuga á að fara til Grikklands og þegar hinir trúuðu fréttu það, hvöttu þeir hann eindregið. Þeir skrifuðu bréf til þeirra sem þar voru kristnir og báðu þá að taka vel á móti honum. Þegar hann kom til Grikklands notaði Guð hann til mikils gagns í söfnuðunum.
28 Í opinberum rökræðum gerði hann alla Gyðinga orðlausa og sannaði út frá Gamla testamentinu að Jesús væri Kristur.