2
„Heimskuleg“ fyrirætlun Guðs
1 Kæru bræður og systur, þegar ég kom til ykkar fyrst, þá notaði ég ekki háleit orð og snilldarlegar hugmyndir til að flytja ykkur boðskap Guðs.
2 Ég ákvað að tala eingöngu um Jesú Krist og dauða hans á krossinum.
3 Ég kom til ykkar í vanmætti, feiminn og hræddur.
4 Boðun mín var mjög fábrotin. Hún var ekki með mælskusnilld og mannlegri speki, heldur var kraftur heilags anda í orðum mínum og sannaði fyrir þeim, sem þau heyrðu, að boðskapurinn var frá Guði.
5 Þetta gerði ég af því að ég vildi að trú ykkar væri byggð á Guði einum, en ekki á háleitum hugsjónum einhvers manns.
6 En þegar ég er meðal þroskaðra, kristinna manna þá nota ég vísdómsorð, þó ekki mannlegan vísdóm eða þann sem höfðar til stórmenna þessa heims, sem dæmd eru til að falla.
7 Orð okkar eru skynsamleg af því að þau eru frá Guði og þau segja frá skynsamlegri fyrirætlun Guðs, um að leiða okkur inn í dýrð himinsins. Þessi fyrirætlun var hulin forðum daga enda þótt hún hafi verið gerð okkur til hjálpar og það áður en heimurinn varð til.
8 En stórmenni þessa heims hafa ekki skilið hana, annars hefðu þeir ekki krossfest konung dýrðarinnar.
9 Það er þetta sem átt er við þegar Biblían segir að enginn maður hafi nokkurn tíma séð, heyrt eða jafnvel ímyndað sér allt það dásamlega sem Guð hefur í hyggju handa þeim sem elska Drottin.
10 Þetta vitum við af því að Guð hefur sent anda sinn til að segja okkur það og andi hans þekkir og sýnir okkur allar leyndustu hugsanir Guðs.
11 Enginn getur vitað með vissu hvað einhver annar hugsar eða hvernig sá er í raun og veru, heldur þekkir hver og einn aðeins sjálfan sig. Og enginn getur þekkt hugsanir Guðs nema andi Guðs sjálfs.
12 Guð hefur sent okkur anda sinn (ekki anda heimsins) til að segja okkur frá þeim dýrlegu gjöfum náðar og blessunar sem hann hefur gefið okkur.
13 Þegar við segjum frá þessum gjöfum, þá höfum við notað sömu orð og heilagur andi hefur gefið okkur en ekki orð sem við menn hefðum valið. Þannig notum við orð heilags anda til að útskýra verk heilags anda.
14 Sá maður, sem ekki hefur anda Guðs, getur hvorki skilið né meðtekið þær hugsanir Guðs, sem heilagur andi kennir okkur. Þær eru fáránlegar í augum hans, því að þeir einir sem eiga heilagan anda geta skilið hvað heilagur andi á við. Aðrir botna hreint ekkert í því.
15 Sá maður sem hefur heilagan anda, hefur innsýn í allt. Það veldur undrun og heilabrotum þess sem ekki er kristinn,
16 og hvernig ætti hann líka að geta skilið það? Sá maður er alls ekki fær um að þekkja hugsanir Drottins eða ræða þær við hann. Það er undarlegt en satt, að við kristnir menn, skulum eiga hlutdeild í hugsun og huga Krists!