15
Berið byrðar annarra
Þótt við álítum að Drottni sé sama hvort við gerum það sem ég var að tala um eða látum það ógert, þá getum við samt ekki haldið því áfram til að þóknast sjálfum okkur, því að við verðum að bera þá „byrði“ að taka tillit til viðhorfa þeirra, sem álíta að rangt sé að snerta þessa hluti. Við ættum því að þóknast hinum en ekki sjálfum okkur og gera það sem þeim er fyrir bestu og efla þá þannig í Drottni. Kristur reyndi aldrei að þóknast sjálfum sér. Um það segir í Davíðssálmi:
„Hann kom til að þjást og þola fyrirlitningu andstæðinga Drottins.“
Þessi orð Gamla testamentisins voru skrifuð fyrir löngu og eiga að kenna okkur þolinmæði og vera til uppörvunar, svo að við getum horft full eftirvæntingar fram til þess tíma er Guð hefur sigrað synd og dauða að fullu.
Guð, sem uppörvar og eykur þolinmæði og staðfestu, hann hjálpi ykkur til að vera samhuga svo að þið getið umgengist hvert annað með hugarfari Krists. Þá munuð þið getað lofað Drottin einum rómi og gefið Guði föður og Drottni Jesú Kristi dýrðina.
Vegsamið Guð sameiginlega
Takið því hvert annað að ykkur, eins og Kristur tók ykkur að sér, því að slíkt er Guði að skapi. Munið að Jesús Kristur kom til að hjálpa Gyðingunum og sanna að Guð stendur við loforðin sem hann gaf þeim. Munið og að hann kom einnig til þess að heiðingjarnir gætu frelsast og vegsamað Guð fyrir miskunnina sem hann auðsýndi þeim. Þessu lýsti sálmaskáldið svo:
„Ég mun vegsama þig meðal heiðingjanna og lofsyngja nafn þitt.“
10 Á öðrum stað stendur:
„Fagnið þið heiðingjar ásamt þjóð hans, Ísrael.“
11 Og enn segir hann:
„Lofið Drottin allar þjóðir og vegsamið hann allir lýðir!“ 12 Jesaja spámaður lýsti þessu svo:
„Sá mun fæðast af ætt Ísaí sem verða mun konungur allra þjóða og honum einum munu þeir treysta.“
13 Með þetta í huga bið ég fyrir ykkur, heiðingjunum, að Guð vonarinnar fylli ykkur fögnuði og friði trúarinnar, svo að von ykkar styrkist æ meira í krafti heilags anda.
Frá Jerúsalem til Illyríu
14 Ég veit, vinir mínir, að þið eruð skynsamir og kærleiksríkir og þess vegna skiljið þið þetta vel og eruð færir um að uppfræða hver annan. 15-16  Samt sem áður áræddi ég að leggja áherslu á sum þessara atriða, því að ég vissi að þið þörfnuðust einmitt þessara áminninga minna. Guð hefur nefnilega veitt mér þá náð að vera sérlegur sendiboði Jesú Krists til ykkar, sem ekki eruð Gyðingar. Ég flyt fagnaðarerindið og ber ykkur síðan fram fyrir Guð sem fórn, honum velþóknanlega, því að þið eruð orðin hrein og honum að skapi, fyrir áhrif heilags anda. 17 Mér er því heimilt að vera dálítið hróðugur af öllu því sem Kristur Jesús hefur notað mig til að gera. 18 Ég dirfist ekki að dæma um með hve miklum árangri hann hefur notað aðra en eitt veit ég: Hann hefur notað mig til að leiða heiðingjana til Guðs. 19 Ég hef unnið þá með boðskap mínum og líferni, sem þeir hafa veitt eftirtekt, með kraftaverkum sem Guð hefur látið mig gera, en þau eru tákn frá honum og allt er þetta fyrir kraft heilags anda. Þannig hef ég predikað allan fagnaðarboðskap Krists, allt frá Jerúsalem og sem leið liggur til Illyríu.
Ferð til Rómar
20 En allan þennan tíma hef ég þráð að komast enn lengra og predika þar sem nafn Krists hefur ekki enn heyrst, fremur en á stöðum þar sem aðrir hafa þegar stofnað söfnuði. 21 Ég hugfesti orð Jesaja, en hann segir að þeir sem aldrei hafi heyrt nafn Krists, muni sjá og skilja, 22 og það er reyndar ástæða þess hve ég hef þráð að koma til ykkar.
23 Nú er ég loks tilbúinn að koma eftir öll þessi ár, því verki mínu hér er lokið. 24 Nú er ég að ráðgera ferð til Spánar og þegar að henni kemur, mun ég koma við hjá ykkur í Róm. Þegar við höfum notið þess að vera saman um stund, getið þið fylgt mér á leið. 25 En áður en ég kem, verð ég fyrst að fara til Jerúsalem með gjöf til Gyðinganna, sem þar eru kristnir. 26 Söfnuðirnir í Makedóníu og Akkeu hafa safnað fé handa þeim í Jerúsalem, því að þeir hafa þolað mikla erfiðleika. 27 Þetta gerðu þeir með glöðu geði, því þeim finnst þeir vera í mikilli skuld við kristna söfnuðinn í Jerúsalem. Hvers vegna? Vegna þess að fréttirnar um Krist bárust þessum heiðingjum frá kirkjunni í Jerúsalem. Og fyrst þessi mikla gjöf, gleðiboðskapurinn, hefur borist þeim þaðan, þá finnst þeim ekki nema sjálfsagt að veita fjárhagslega aðstoð. 28 Þegar ég hef afhent þeim peningana og þar með komið góðverki þeirra í höfn, mun ég koma við hjá ykkur á leiðinni til Spánar. 29 Ég er viss um að þegar ég kem, mun Drottinn nota mig til að veita ykkur ríkulega blessun.
30 Kæru vinir, ég bið þess að þið berjist með mér í bæn til Guðs, fyrir mér og starfi mínu vegna Drottins Jesú Krists, og kærleika heilags anda. 31 Biðjið Guð að hann varðveiti mig fyrir andstæðingum Krists í Jerúsalem. Biðjið þess einnig að hinir kristnu þar taki fúslega við peningunum sem ég færi þeim, 32 og að ég síðan, ef Guð lofar, geti komið til ykkar glaður í anda og við uppörvast sameiginlega.
33 Guð friðarins sé með ykkur öllum. Amen.