2
Réttlátur dómur Guðs
1 „Ja, hérna,“ segir þú ef til vill, „hvers konar úrþvætti ertu eiginlega að tala um?“ En sjáðu til! Þú ert ekkert betri! Þegar þið lýsið vanþóknun ykkar á þessu fólki og segið að það eigi skilið hegningu, þá eruð þið að tala um ykkur sjálf, því að þið gerið sjálf það sama.
2 Við vitum að Guð mun dæma sérhvern þann sem slíkt gerir, því að hann er réttlátur.
3 Haldið þið að Guð dæmi suma sem þannig lifa og refsi þeim, en geri síðan enga athugasemd við ykkur þegar þið gerið það sama?
4 Sjáið þið ekki hve mikla þolinmæði hann hefur sýnt ykkur? Eða er ykkur ef til vill alveg sama? Skiljið þið ekki að ástæða þess að hann hefur ekki refsað ykkur, er sú að hann gefur ykkur tækifæri til að snúa baki við syndinni? Góðsemi hans ætti að leiða ykkur til iðrunar.
5 Þrátt fyrir það viljið þið ekki hlusta og þar með kallið þið yfir ykkur hræðilega hegningu, því þið eruð þrjósk og viljið ekki snúa ykkur frá syndinni. Dagur reiðinnar mun renna upp og þá mun Guð dæma allan heiminn af réttvísi.
6 Hann mun gjalda sérhverjum eins og hann á skilið samkvæmt verkum sínum:
7 Þeim sem af þrautseigju gera Guðs vilja, mun hann gefa eilíft líf, það er að segja þeim sem leita ósýnilegrar dýrðar, heiðurs og ódauðleika.
8 Þeim hins vegar, sem berjast gegn sannleika Guðs og ganga á vegi illskunnar, mun hann refsa hræðilega – hann mun úthella reiði sinni yfir þá.
9 Menn munu uppskera sorg og þjáningar haldi þeir áfram í syndinni,
10 en hlýði þeir Guði, mun þeim hlotnast dýrð, heiður og friður Guðs. Þetta á bæði við um Gyðinga og heiðingja,
11 því Guð fer ekki í manngreinarálit.
12-15 Guð mun refsa fyrir synd, hvar sem hún finnst. Hann mun refsa heiðingjunum þegar þeir syndga, jafnvel þótt þeir hafi aldrei þekkt hin skráðu lög Guðs, því að innra með sér þekkja þeir muninn á réttu og röngu. Lög Guðs eru skráð í vitund þeirra. Stundum dæmir samviskan þá og stundum afsakar hún þá. En Guð mun einnig refsa Gyðingum. Hann mun refsa þeim fyrir syndir þeirra, því að þeir eiga lög hans skráð í bók en hlýða þeim þó ekki. Þeir vita hvað er rangt, en breyta gegn betri vitund. Þegar öllu er á botninn hvolft er hjálpræðið ekki þeirra sem þekkja mun á réttu og röngu, heldur hinna sem gera það sem rétt er.
16 Sá dagur mun vissulega koma, er Jesús Kristur mun að boði Guðs dæma líferni sérhvers manns og líka dýpstu hugsanir hans og viðhorf. Allt er þetta hluti hinnar miklu fyrirætlunar Guðs, sem ég boða.
Gyðingar jafn sekir og heiðingjar
17 Gyðingar, þið haldið að allt sé á hreinu milli ykkar og Guðs vegna þess að þið eruð Gyðingar og vegna þess að hann gaf ykkur lög sín. Þið gortið af því að vera í sérstöku uppáhaldi hjá Guði!
18 Ekki neita ég því að þið þekkið vilja hans; þið þekkið mun á réttu og röngu og hafið vit á að velja hið rétta, því að ykkur hafa verið kennd lög Guðs frá blautu barnsbeini.
19 Þið eruð svo vissir um leiðina til Guðs að þið gætuð jafnvel bent blindum manni á hana. Þið álítið ykkur vera leiðarljós sem leiðbeina þeim til Guðs, sem villst hafa í myrkrinu.
20 Þið teljið ykkur geta leiðbeint hinum lítilmótlegu og frætt börnin um verk Guðs, því að þið þekkið lög hans, vísdóm og sannleika.
21 Þið fræðið aðra um lög hans, en hvers vegna farið þið ekki sjálfir eftir þeim? Þið segið fólki að rangt sé að stela – en stelið þið ekki sjálfir?
22 Þið segið að rangt sé að drýgja hór, en hvað með ykkur? Þið segið: „Tilbiðjið ekki skurðgoðin,“ en svo gerið þið peningana að guði ykkar.
23 Þið eruð ákaflega stoltir af því að þekkja lög Guðs en síðan lítilsvirðið þið Guð með því að brjóta þau.
24 Ekki undrar mig þótt Gamla testamentið segi að heimurinn tali illa um Guð ykkar vegna.
25 Það er kostur fyrir ykkur að vera Gyðingar ef þið hlýðið lögum Guðs, en ef ekki, þá eruð þið engu betur settir en heiðingjarnir.
26 Mun Guð ekki veita heiðingjunum alla þá blessun sem hann ætlaði Gyðingunum, ef þeir hlýða lögum hans?
27 Staðreyndin er sú að betur mun fara fyrir heiðingjunum en ykkur, Gyðingum, sem þekkið Guð og eigið loforð hans, því að þið hlýðið þeim ekki.
Umskurnin gagnslaus
28 Þið eruð ekki sannir Gyðingar fyrir það eitt að foreldrar ykkar voru Gyðingar eða vegna þess að þið hlutuð hina gyðinglegu vígslu, umskurnina.
29 Nei, sá einn er sannur Gyðingur sem hefur rétta afstöðu til Guðs. Guð sækist ekki eftir þeim sem skera í líkama sinn samkvæmt gyðinglegri venju, heldur þeim sem hafa breytt hugarfari sínu og endurnýjað samband sitt við Guð. Hver sem þannig tekur upp nýja lífsstefnu, hlýtur blessun Guðs, jafnvel þótt hann láti sér fátt um finnast.