18
Borgin volduga fellur
1 Eftir þetta sá ég annan engil koma niður af himni. Hann hafði mikið vald og dýrð hans varpaði ljóma á jörðina.
2 Hann kallaði hárri röddu: „Babýlon hin mikla er fallin, hún er fallin! Hún er orðin bæli illra anda, samastaður djöfla og alls þess sem illt er.
3 Ástæðan er sú að hún gaf öllum þjóðum að drekka sitt hræðilega saurlifnaðarvín. Konungar jarðarinnar nutu blíðu hennar og kaupsýslumenn um allan heim græddu á eyðslusemi hennar.“
4 Nú heyrði ég aðra rödd kalla frá himni: „Gangið út úr henni, fólk mitt, og takið ekki þátt í syndum hennar, annars mun ykkur verða refsað ásamt henni.
5 Syndir hennar hafa hlaðist upp allt til himins og Guð er reiðubúinn að dæma hana fyrir glæpi hennar.
6 Gjaldið henni í sömu mynt og hún galt ykkur, jafnvel enn ríkulegar – gjaldið henni tvöfalt fyrir öll ódæðisverk hennar. Hún leiddi bölvun yfir marga, gefið henni því tvöfaldan skammt.
7 Hún var hrokafull og lifði í munaði, mælið henni nú sem því nemur af kvölum og sorg. Hún sagði í hroka sínum: „Ég er drottningin. Ég sit í hásætinu. Ég er ekki vesæl ekkja – nei, ógæfan forðast mig!“
8 Vegna þessara orða munu sorg og dauði koma yfir hana á sama degi og hún mun eyðast í eldi. Vald Drottins er mikið og hann er dómari hennar.“
9 Leiðtogar heimsins, sem þátt tóku í siðleysi hennar og nutu blíðu hennar, munu fyllast angist þegar þeir sjá hana brenna og reykinn stíga upp af ösku hennar.
10 Þeir munu standa langt frá, skjálfandi af ótta og hrópa: „Æ, þú Babýlon, borgin mikla! Dómur þinn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.“
11 Kaupmenn jarðarinnar gráta og kveina yfir henni, því nú finnst enginn til að kaupa vörur þeirra framar.
12 Hún var þeirra besti viðskiptavinur. Hún keypti af þeim gull, silfur, gimsteina, perlur, dýran vefnað, purpura, silki og skarlat og alls konar ilmvið, fílabein og dýrmætan útskorinn við, eir, járn og marmara.
13 Þeir seldu henni einnig krydd, ilmefni og reykelsi, smyrsl, vín, olífuolíu, fínmalað korn, hveiti, nautgripi, sauðfé, hesta, vagna og þræla – jafnvel mannssálir.
14 „Nú er allt þetta góss, sem þú sóttist eftir, orðið að engu!“ hrópa þeir. „Framvegis munt þú ekki augum líta allan þennan dýrindismunað og allt þetta skraut sem þú sóttist eftir, því að það er farið veg allrar veraldar.“
15 Kaupmennirnir, sem auðguðust af viðskiptum sínum við hana, munu standa langt frá, skelfingu lostnir, því að þeir óttast afkomu sína í framtíðinni. Þeir munu gráta og kveina og segja:
16 „Æ, æ, borgin mikla. Þú varst eins og fögur kona sem klæddist dýrum purpura og skarlatslitu líni, hlaðin skartgripum úr gulli, gimsteinum og dýrum perlum.
17 Á einni svipstundu urðu öll þín miklu auðæfi að engu!“
Eigendur kaupskipa, skipstjórar þeirra og áhafnir, munu horfa úr fjarlægð á reykinn stíga til himins
18 og segja með grátstafinn í kverkunum: „Engin borg í öllum heiminum jafnaðist á við þessa!“
19 Þeir munu kveina hátt, viti sínu fjær af sorg og segja: „Hvílík ógæfa kom yfir þessa miklu borg! Það voru auðæfi hennar sem gerðu okkur ríka, en nú er allt orðið að engu á einu augabragði.“
20 En þú, himinn, þú skalt fagna örlögum hennar og sömuleiðis þið, börn Guðs, spámenn og postular. Guð hefur leitað réttar ykkar gegn henni.
21 Þá tók voldugur engill upp stóran stein, líkan kvarnarsteini, fleygði honum í hafið og hrópaði: „Babýlon, borgin mikla, henni mun verða fleygt burt eins og ég fleygði þessum steini. Hún mun hverfa svo að hvorki sjáist tangur né tetur af henni upp frá því.
22 Framvegis mun engin tónlist heyrast í henni, hvorki hörpusláttur né lúðurhljómur. Enginn iðnaður mun þrífast þar framar og ekkert korn verður malað.
23 Nætur hennar verða dimmar, niðdimmar, og þar mun aldrei framar sjást ljós í glugga. Þar verða engar klingjandi brúðkaupsbjöllur né glaðværar raddir brúðar og brúðguma. Kaupmenn hennar voru heimskunnir og hún leiddi þjóðirnar afvega með kukli sínu og göldrum.
24 Hún bar ábyrgð á dauða spámanna og margra helgra manna.“